Nefkirtlataka

Nefkirtlataka

Almennar upplýsingar

Nefkirtar eru einn samvaxinn massi. Þeir sitja í nefkokinu fyrir ofan og aftan mjúka góminn og eru svipaðrar gerðar og hálskirtlarnir. Öll börn hafa nefkirtla, en misstóra. Frá sjö eða átta ára aldri minnka þeir smám saman og hverfa venjulega um kynþroskaaldur. Séu nefkirtlarnir teknir á unga aldri, getur verið að þeir vaxi aftur. Aðgerðin er gerð í gegn um munnholið.


Helstu ástæður aðgerðar eru

Stórir kirtlar sem geta valdið einkennum svo sem öndunarörðugleikum að nóttu með hrotum og jafnvel kæfisvefni. Þeir geta loka fyrir kokhlustir og valda sýkingu eða vökvasöfnun í miðeyrum eða valdið stöðugu horrennsli þrátt fyrir sýklalyfjameðferð.


Undirbúningur, aðgerð og dvöl á vöknun

Barnið kemur fastandi og aðgerðin er gerð í svæfingu. Sjaldnast er þörf á forlyfjagjöf annað en paracetamól klukkutíma fyrir komu. Barnið sofnar yfirleitt með að anda að sér svæfingalyfi í gegnum grímu. Foreldrar eru hjá barninu þegar það sofnar og þegar það vaknar inni á vöknun. 

Misjafnt er hvað börn sofa lengi eftir aðgerðina, sum vakna strax en önnur sofa í klukkustund. Þau börn sem vakna strax geta orðið óróleg. Það er vegna áhrifa af svæfingalyfjum sem gefin voru í aðgerðinni en oftast ekki vegna verkja.

Settur er æðaleggur í æð barnsins í aðgerðinni sem hægt er að gefa ógleðistyllandi- og verkjalyf ef þarf. Hann er svo fjarlægður áður en barnið fer heim.

Barnið má drekka þegar það er vel vaknað eftir aðgerðina og borða ef það hefur lyst. Ekki er óeðlilegt að sum börn fái ógleði og jafnvel uppköst.


Verkir og verkjameðferð

Það eru yfirleitt ekki miklir verkir eftir nefkirtlatöku. Vegna þess að aðgerðin er gerð í gegnum munnholið þá getur kokið verið aumt fyrsta sólahringinn. Parasetamol dugar oftast vel við verkjum sem geta komið og er algengt að taka verkjalyf í einn til tvo sólahringa eftir aðgerðina. Skammtar eru eftir fyrirmælum á umbúðum eða fyrirmælum læknisins hverju sinni.


Sárið og blæðingarhætta

Það getur runnið blóðlitað slím úr nefinu á meðan barnið þitt er á vöknun og er það eðlilegt. En ef þú verður var við mikla blæðingu sem stoppar ekki þegar heim er komið þá þarf að hafa samband við lækni.


Hiti

Eðlilegt er að hafa hitaslæðing, allt að 38° í tvo daga eftir aðgerð. Hafðu samband við lækni ef hitinn hverfur ekki eða fer hækkandi.


Matur og drykkur

Það má borða allan mat eftir aðgerðina. Forðastu samt mjög heita drykki aðgerðadaginn. Matarlist getur verið lítil fyrst eftir aðgerðina og reynist oft gott að fá sér léttan mat fyrst á eftir. Það er mikilvægt að barnið drekki oft eftir aðgerðina. 


Hreyfing

Halda þarf barninu heima í 3-5 daga eftir aðgerðina eða eftir fyrirmælum læknis. Það má fara í sund eftir 3-4 daga.


Neyðarsími fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð er 842-5333


  • Erlingur Hugi Kristvinsson
  • Hannes Petersen
Share by: